Við fáum reglulega fyrirspurnir frá viðskiptavinum okkar varðandi kaup á fartölvum.
Að ákveða hvernig fartölvu á að kaupa getur verið flókið og erfitt enda er úrvalið gríðarlega mikið og gæðin og getan misjöfn. Án vitneskjunnar um hvað skuli kaupa er hætta á því að maður komi heim með tölvu sem hefur varla afl til að komast á internetið.
Stutta útgáfan
Ekki kaupa fartölvu sem kostar undir 100.000 krónum.
Ódýrar fartölvur eru með ódýrum vélbúnaði og oftast illa búnar. Ódýr vélbúnaður þýðir hægari og veikbyggðari tölva sem úreldist fyrr. Hún ræður illa við hugbúnaðaruppfærslur og nú stýrikerfi og þú endar á því að skipta henni út mun fyrr en ef þú hefðir keypt dýrari og öflugri tölvu.
Keyptu fartölvu sem kostar að lágmarki 150 – 200.000
Þannig færðu fartölvu með öflugum örgjörva, nægjanlegu geymsluplássi og vinnsluminni sem dugar í alla venjulega vinnslu. Því öflugri sem tölvan er því lengur mun hún endast og ráða við hugbúnaðaruppfærslur og ný stýrikerfi. Þú færð það sem þú borgar fyrir.
Skoðaðu byggingu tölvunnar.
Mikið plastaðar tölvur eru veikbyggðar, skrúfufestingar losna fyrr og þær hreinlega brotna í sundur í sumum tilvikum. Skoðaðu músina og virkni hennar og passaðu upp á að lyklaborðið gefi ekki eftir þegar það er notað
Veldu skjástærð og skjáupplasun sem hentar þér.
Þetta er mjög persónubundið. Sumum finnst erfiðara að horfa í litla skjái en þá skiptir upplausnin oft máli. Fleiri punktar þýða meiri skerpu og skjágerð eins og IPS eða Retina getur skipt þig máli. Ekki kaupa tölvu með snertiskjá nema þú ætlir þér að nota hann.
Ekki horfa um of á merkið
Merkið skiptir ekki öllu máli og það er skynsamlegt að forðast trúarbrögð þegar það kemur að tölvukaupum. Stærstu framleiðendurnir eru ekki alltaf með bestu vöruna. Skoðaðu frekar byggingu tölvunnar og hvaða vélbúnaður er í henni
Lengri útgáfan
Notkun.
Það fyrsta sem fólk talar um þegar það er að biðja um ráð varðandi tölvukaup er hvað það hefur hugsað sér að nota tölvuna í. „Hún er fyrst og fremst heimilistölva.“ „Hún verður bara notuð til að fara á netið.“ „Hún verður ekki notuð í leiki.“ Og svo frv. Í raun er það þannig að fyrirhuguð notkun skiptir í raun minnstu máli. Nánast allar fartölvur þurfa að komast á internetið hvort sem þær eru til heimilsnota eða leikjaspilunar enda eru flestir tölvuleikir í dag spilaðir á internetinu eða þurfa á tengingu við internetið að halda.
PC eða Apple.
Sumir vilja Apple fartölvu, aðrir geta ekki hugsað sér að nota Apple og enn öðrum finnst það flottara að eiga Apple fartölvu. Apple er reyndar ekkert annað en PC tölva með vísan í vélbúnað hennar. Hún er búin Intel örgjörva, vinnsluminnið er nákvæmlega eins og diskarnir líka. Það sem skilur á milli PC og Apple er hugbúnaðurinn. Hann er ekki eins.
Apple:
Apple framleiðir nokkrar gerðir af fartölvum. MacBook er með 12“ Retina skjá, MacBook Air er með 13 tommu skjá og MacBook Pro með 13 og 15 tommu skjá. Allar eru þær án DVD drifa, með innbyggðu vinnsluminni sem ekki er hægt að auka síðar meir og rafhlaðan er límd í þær þannig að nánast ómögulegt er að skipta um hana. Allar koma þær með SSD harðdiskum.
PC:
Það er gríðarlegt úrval af PC fartölvum á markaðnum og gerðirnar er margar. Við flokkum PC tölvur oft eftir þeim örgjörvum sem eru í þeim en öfugt við Apple eru PC tölvur fáanlegar með allt að 7 mismunandi örgjörvum frá tveimur framleiðendum. AMD og Intel. Hvor örgjörvaframleiðandi um sig framleiðir margar gerðir örgjörva en hjá Intel eru það Celeron, Pentium, Core i3, Core i5, Core i7, Core i9 og Xeon örgjörvar. Celeron örgjörvinn er sá aflminnsti og Core i7 sá öflugasti. Hjá AMD er um að ræða Athlon og Ryzen. Örgjörvarnir eru síðan með mismarga kjarna, mismikið flýtiminni og svo frv.
Hvaða örgjörva.
Við mælum með að alltaf séu keyptar tölvur með Intel örgjörvum. Ástæðan er einfanldlega sú að Intel örgjörvinn er að okkar mati betri kostur en AMD. Hann bilar lítið sem ekkert, þolir meiri hita og er öflugri í þungri vinnslu. Skynsamlegast er að kaupa fartölvu sem er að lágmarki með Intel Core i5 örgjörva.
Skjákort.
Í flestum tilvikum eru Intel HD skjákortin nægjanleg en ef nota á fartölvuna til tölvuleikjaspilunar er ráðlegt að skoða að kaupa tölvu með þrívíddarskjákorti frá nVidia eða ATI.
Vinnsluminni.
8GB er algjört lágmark í dag.
Harðdiskur.
SSD diskar eru staðallinn í dag og þarf diskurinn að vera að lágmarki 250GB.
Skjárinn.
Fartölvur með 15,6“ HD skjám eru alltaf vinsælar en vélar með minni skjám sækja þó í sig veðrið. Þar er oftast um að ræða fartölvur með snertiskjám sem jafnvel er hægt að snúa á hvolf þannig að tölvan breyist í spjaldtölvu. Val á skjá er í raun persónubundið þar sem sumir vilja og jafnvel þurfa stærri skjái á meðan aðrir vilja minni og léttari tölvur sem auðvelt er að ferðast með.
Tölvan sjálf.
Bygging tölvunnar þarf að vera traustleg. Forðast skal mikið „plastaðar“ tölvur og mjög nauðsynlegt er að skoða og „prófa“ lyklaborð, trackpad og skjá. (Trackpad er músin á tölunni). Ef músarbendillinn færist til þegar smellt er á músartakka borgar sig að sneiða hjá þeirri tölvu. Sama á við um lyklaborðið en dúandi lyklaborð er ekki gott til að skrifa á. Ef skjárinn er þungur þegar hann er opnaður / honum lokað, bendir það til þess að lamir og skjáfestingar séu veigalitlar. Við fáum slíkar tölvur reglulega inn á verkstæðið með brotinn botn / toppkassa eða jafnvel hvorutveggja. Erfitt getur verið og mjög kostnaðarsamt að laga slíkt.
Merkið.
Við tölum stundum um trúarbrögð þegar við hlustum á tal fólks um að þetta eða hitt merkið sé best. Það er reyndar rétt að sumar tölvur bila meira en aðrar og stærstu fartölvuframleiðendurnir eru jafnvel með mestu bilanatíðnina miðað við marktækar kannanir. Reynslan hefur hins vegar kennt okkur að trúarbrögð eru heimskuleg þegar það kemur að því að velja fartölvu. Allir hlutir bila óháð því hvaða merki er á þeim. Við sjáum miklu frekar tengsl á milli bilana / skemmda og verðs. Það virðist nefnilega vera þannig að „þú færð það sem þú borgar fyrir“. Kannanir hafa sýnt fram á að ekki borgi sig að kaupa fartölvu sem er verðlögð undir 1.000 dollurum.
Flestir tala um að Apple tölvur séu dýrar en ef maður skoðar þann vélbúnaði sem er í Apple tölvum og byggingu tölvunnar sem er úr áli og ber saman við PC tölvu með sama vélbúnað þá sér maður að verðmunurinn er lítill sem enginn og í sumum tilvikum eru Apple fartölvur ódýrari en PC. Niðurstaða. Við mælum með að keypt sé fartölva með Intel Core i5 örgjörva, 256-500GB SSD harðdisk, 8GB vinnsluminni og 15,6“ HD skjá. Hún þarf að vera sterklega byggð og ekki of þung. Verðið gæti verið á bilinu 100-150.000.- Síðan eitt ráð að lokum: Það er bannað að segja „ég hef ekkert vit á tölvum“ við sölumenn í tölvuverslunum.