Gagnageymsla og afritun gagna

Afritun og geymsla á gögnunum okkar.

 

Skýjageymslur.

Einstaklingar og fyrirtæki nota skýjageymslur í auknum mæli til að geyma gögn. OneDrive frá Microsoft og iCloud frá Apple eru mikið notuð af einstaklingum til geymslu á gögnum og fyrirtæki nota OneDrive í síauknum mæli til geymslu og samnýtingar á gögnum. Hafa ber í huga að þó að skýjageymslur séu öflug og tiltölulega örugg leið til geymslu á gögnum þá er í raun ekki um afritun að ræða í flestum tilvikum. Hægt er að stilla skýjageymslur á þann hátt að gögnin séu einungis geymd þar þangað til þú þarft að nota þau og þá er ekki víst að við séum með afrit á tölvunni.

Kostir:
  • Einföld leið til að geyma gögn.
  • Engin þörf á að endurnýja vélbúnað reglulega.
Gallar:
  • Gögnin eru oftast aðeins á einum stað.
  • Nái hakkari tökum á tölvunni þinni nær hann líka tökum á skýinu og gögnunum sem eru þar.
  • Getur oðið kostnaðarsamt ef magn gagna er mikið.

Hybrid afritun.

Hybrid afritun samanstendur af NAS og skýjageymslu. Nas (Network attached storage) er „diskastöð“ sem inniheldur 2 eða fleiri gagnadiska sem eru uppsettir með RAID stýringum. (Raid tryggir gagnaöryggi fyrir bilunum í vélbúnaði með ákveðnum skilyrðum). Gögnin eru í þessu tilviki geymd á NAS stöðinni og notuð og/eða samnýtt þaðan yfir innranet á heimili eða í fyrirtæki. Nas diskastöðin er síðan tengd við skýjageymslu þangað sem hún sendir sífellt afrit af þeim gögnum sem eru á NAS diskastöðinni.

Kostir:
  • Mikið gagnaöryggi. (Ef 1 gagnadiskur bilar haldast gögnin örugg). Gögnin á tveimur stöðum.
  • Öflugar aðgangsstýringar.
  • Einfalt í notkun.
Gallar:
  • Nái hakkari tökum á tölvunni þinni nær hann líka tökum á skýinu.
  • Endurnýja þarf vélbúðan (NAS-diska) á nokkurra ára fresti en það hefur ákveðinn kostnað í för með sér.

Hybrid afritun með afritun yfir á flakkara.

Allt sem gildir um hybrid afritun að viðbættri afritun yfir á flakkara sem síðan er geymdur á öruggum stað.

Kostir:
  • Þarna erum við með belti og axlarbönd. Besta gagnaöryggið.
  • Gögnin eru geymd á 3 stöðum þar sem einn staðurinn er utan netsambands og þannig ekki á færi hakkara að komast yfir hann eftir venjulegum leiðum.
Gallar:
  • Kostnaðarsamt þar sem nauðsynlegt að nota a.m.k. 2 flakkara til afritunar.
  • Endurnýja þarf vélbúnaði á 3-5 ára fresti sem hefur aukinn kostnað í för með sér.

Niðurstaðan er sú að ef um verðmæt gögn er að ræða þá er nauðsynlegt að taka afrit af þeim á flakkara og geyma á öruggum ónettengdum stað. Hvort sem flakkaraleiðin er valin í samtengingu við Nas, skýjageymslu eða hvoru tveggja fer síðan eftir umfangi og kröfum um notkun. Hafa ber í huga að bilanir gera ekki boð á undan sér og hakkarar geta bankað upp á þegar síst skyldi. Hið gamla góða máltæki „ekki geyma öll eggin í sömu körfunni“ á vel við í þessu sambandi.