Hvernig er best að nota þær til að hámarka líftíma þeirra?

Apple fartölvur (MacBook og MacBook Pro) nota lithium-polymer rafhlöður.  Nýjasta línan af MacBook Pro fartölvunum (Retina) notar stærri rafhlöður sem eru óútskiptanlegar úr tölvunum.  Hönnun þeirra miðast við breytilega hleðslu til lengingar á líftíma þeirra.

Með því að hafa eftirfarandi atriði í huga við notkun á fartölvunni þinni getur þú mögulega hámarkað endingartíma rafhlöðunnar og greint þau vandamál sem upp geta komið við notkun hennar.Hvað má og hvað má ekki.

  • Reyndu að nota rafhlöðuna oft en stutt í einu.  Ráðlagt er að full hlaða fartölvuna 1-2 sinnum í viku og að lágmarki einu sinni í viku.   
  • EKKI láta rafhlöðuna tæmast algjörlega.
  • EKKI geyma rafhlöðuna eða fartölvuna í miklum hita eins og t.d. í farangursrými bíls.  Þetta á sérstaklega við um „fullhlaðnar“ rafhlöður.
  • EKKI nota fartölvuna þína án þess að rafhlaðan sé í henni.  


Notkun rafhlöðunnar


Lithium rafhlöður virka best þegar þær eru notaðar oft en ekki í of langan tíma í einu.  Einfaldasta dæmið gæti verið á þá leið að nota fartölvuna þar til hleðslan fer niður í 50% en tengja hana þá við rafmagn til að hlaða hana.  Þessi leið viðheldur „flæði“ í rafhlöðunni.  Einnig skal varast að tæma Lithium rafhlöður algjörlega á sama hátt og varast skal að hafa þær stanslaust í hleðslu.  Athugið að Þegar Apple fartölvur (MacBook / Pro ) eru tengdar við rafmagn er engin hætta á að þær „yfirhlaði“ sig og á hleðsla að stöðvast þegar rafhlaðan nær 95% eða hærri hleðslu.


Góð þumalputtaregla er að vera með Apple fartölvuna tengda við rafmagn mestan þann tíma sem hún er í notkun en nota hana á rafhlöðunni einni nokkrum sinnum í viku í stuttan tíma í senn þannig að „full hleðsla“ verði að lágmarki tvisvar sinnum á viku.  Það þýðir 300 hleðslur á 3 árum en þá ætti virkni rafhlöðunnar að vera um 80% undir eðlilegum kringumstæðum.  Full hleðsla (full charge cycle) samanstendur af einni fullri hleðslu á rafhlöðunni úr 0 í 100%.  Ef rafhlaðan í Apple tölvunni sýnir 50% hleðslu og þú hleður hana upp í 100% þá jafngildir það hálfri fullri hleðslu.  Ef þú hins vegar hleður tölvuna þína eins næsta dag á eftir (50-100%) þá er búið að hlaða hana eina „fulla hleðslu“.

  • 5 fullar hleðslur í viku = Virkni rafflöðunnar fer undir 80% eftir 14 mánuði
  • 3 fullar hleðslur í viku = Virkni rafhlöðunnar fer undir 80% eftir 2 ár
  • 2 fullar hleðslur í viku = Virkni rafhlöðunnar fer undir 80% eftir 3 ár

Hægt er að sjá hversu oft rafhlaðan hefur verið full hlaðin (charge cycles) með því að fara í about this mac-more info-og smella á "power".  Þar er hægt að sjá hversu oft rafhlaðan hefur verið fullhlaðin.  Einnig er hægt að sækja "coconut battery" forritið sem sýnir fjölda fullra hleðslna og virkni rafhlöðunnar.  Hægt er að nálgast coconut battery forritið hér.


Það eru einkum tvær ástæður fyrir því að þú ættir að varast að nota MacBook / Pro fartölvuna þína án rafhlöðunnar:


A: Þú getur átt það á hættu að tapa gögnum ef hleðslutækið er óvart tekið úr sambandi við tölvuna.  Í slíku tilfelli getur skráarkerfið á harða disknum hrunið með þeim afleiðingum að gögnin sem eru á honum tapast.
B: Örgjörvinn í Apple fartölvunni mun keyra á lægri hraða en ef rafhlaðan væri í tölvunni.  Ástæðan er einfaldlega sú að stundum þarf örgjörvinn á meiri orku að halda (í stuttan tíma í senn) en þeirri sem hann fær í gegnum hleðslutækið.  Þá dregur hann meiri orku frá rafhlöðunni.  Ef engin rafhlaða er til staðar í fartölvunni þá keyrir stýrikerfið örgjörvann niður í hraða.